29 júní 2008

Vonbrigði ársins!

Eftir að hafa heyrt nokkra meðlimi Fræðafélagsins o.fl. tala mjög fjálglega um veitingastað hér á Höfn í Hornafirði síðastliðið ár, nánar tiltekið Humarhöfnina, ákváðum við að sækja heim þann veitingastað í gærkveldi. Eins og nafnið gefur til kynna þá sérhæfir Humarhöfnin sig í humarréttum eins og humarpizzum, humarsúpu, humarflautu o.s.fr. Ég ákvað að fá mér humarsúpu og get ég ekki sagt en að það hafi verið mikil tilhlökkun við að smakka þessa súpu. Eeeen vonbrigðum mínum er varla hægt að lýsa. Þessi humarsúpa var svo sannarlega sú allra versta humarsúpa sem ég hef bragðað og slagaði hátt í að vera eins sú versta súpa yfirhöfuð. Vantaði allt humarbragð og var bara meira kartöflu- og hveitibragð. Voru uppgraftarfélagar mínir sammála í þessu en Sindri sem fékk sér einnig humarsúpu ákvað að refsa sjálfum sér með því að borða sína. Kvörtuðum við þjóninn sem missti það út úr sér að það hefðu fleiri kvartað yfir súpunni. En þegar ég minntist á þetta við annan þjón þegar ég var rukkuð um fullt verð fyrir vonda súpu sem ég gat ekki borðað þá var okkur sagt að kokkurinn væri búin að smakka súpuna og fyndi EKKERT athugavert við hana og þetta væri bara SMEKKSATRIÐI. S.s við höfum bara svona lélegan smekk. Verð að segja það að ég er ekkert að deyja úr spenningi að fara þangað aftur.

P.s Humarpizzan og humarflautan voru þó afbragð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Gugga.
Við vorum að frétta af vonbrigðum þínum með humarsúpuna hjá okkur á Humarhöfninni. Okkur þykir verulega leiðinlegt að þú skyldir fá súpu sem þér líkaði ekki og ekki síður leiðinleg viðbrögð starfsfólks okkar við kvörtun þinni. Auðvitað hefðu þau átt að bjóða þér annan rétt af matseðlinum eða bæta þér það upp á einhvern annan hátt. Við vildum gjarnan fá tækifæri til að bæta þér vonbrigðin, annað hvort með því að endurgreiða þér matinn eða með því að bjóða þér að koma og borða hjá okkur aftur.

Með vinsemd og virðingu
Eigendur Humarhafnarinnar.
info@humarhofnin.is