30 maí 2010

sællegir timar og síðara hár

Dreymdi í nótt að ég fór í klippingu og kom út með sítt hár!

28 maí 2010

Rottur og rómantískir kjólar

Á leiðinni heim í dag/kvöld sá ég einn nágranna minn hér á Lappis en það er rotta sem mér skilst að búi í beði við reiðhjólaskýli ská á móti mér. Ekki amalegir nágrannar hér á Lappis! Ég er frekar svekkt yfir að hafa ekki frekar íkorna búandi ská á móti mér, hef ekki einu sinni séð þá í trénu fyrir utan en það er allt fullt af þeim fyrir utan deildina svo ég kjái bara til þeirra þar. Annars segir Auður að íkornar séu ekkert betri en rottur, þeir séu bara með betri kynningarfulltrúa!

Ætli rottur væru krúttlegri ef þær væru með loðið skott?

Af því að sumarið er komið þá er mig búið að langa mikið í rómantískan sumarkjól og hlaupa niður grasbrekku.



Í tilefni af því að ég fyllti ár nú í mai þá splæsti ég á mig einum slíkum. Hversu skynsamleg fjárfesting þetta reynist vera er óvíst þar sem ég fer á fjöll eftir ca. hálfan mánuð og verð þar langt fram á haust. En hver segir svo sem að afmælisgjafir eigi að vera skynsamlegar? Allavega ekki ég!

23 maí 2010

sólin leikur um mig

hér í Stokkhólmi (ok smá rigning núna) og ég hlusta á geitungana fyrir utan gluggann minn sem reyna að finna sér leið inn til mín, en ég er búin að sjá við þeim þar sem ég opna ekki lengur gluggana!
En öll þessi sól hefur líka í för með sér nokkuð óviljandi en frekar kúl (að mínu mati) brúnkuför.


Notaði líka tækifærið í góða veðrinu til að kíkja á fornleifauppgröft í Korsnäs en það er sami staður og ég og Inga grófum á í haust. Sigtablætið fékk líka smá útrás í leiðnni.


Ég fór líka upp í sumarbústað/hús með Ingu, Elinu og Cissi fyrir stuttu (áður en sólin kom) þar sem Inga aflakló veiddi væna geddu sem hún myrti síðan og át!


Fór líka til Gotlands í apríl en Gotlendingar tala og skrifa skrítna sænsku.

05 maí 2010

Afmælið mitt!

Í dag ákvað ég að vera í fríi í tilefni dagsins og gera bara skemmtilega hluti. Eins og er, er ég búin að taka til, vaska upp, klippa táneglurnar, hringja í bankann og þarf núna að skila bók á bókasafnið og athuga hvort ég get ekki kjaftað mig út úr sektinni (gleymdi að skila henni í síðustu viku) svo ég er að spá í að hætta að ákveða svona fyrirfram og athuga bara næst hvort skemmtilegheitin elti mig ekki bara uppi!

Ég batt miklar vonir við að Gröna Lund gæti hresst mig við með svo sem eins og einni salíbunu í rússibana EN neeei, Gröna Lund er lokað í dag. Það er hinsvegar opið á morgun en það gerir ekki mikið fyrir mig því ég á afmæli í dag en ekki á morgun!

Þetta ætti nú að lagast þar sem ég fæ indverskan mat í kvöld og Inga og Auður verða með heimatilbúin skemmtiatriði fyrir mig í allt kvöld. Svo bíð ég líka spennt eftir afmælispakka þar sem ég treysti á að fólk (lesist Sandra Sif Einarsdóttir) sendi mér einn svona í tilefni dagsins.