23 febrúar 2010

Kemur aldrei aftur vor?

Svíar og aðrir sveitungar eru mjög uppteknir þessa dagana af vorinu eða réttara sagt vorinu sem aldrei kemur, sænska veðurstofan segir nebblega að vorið sé ekkert á næsta leiti!
Ég vil bara benda fólki á að það er 23.febrúar!!!!

En sænsk dagblöð hræða lesendur sína á meðan með myndum eins og þessari.


Þó mér sé ekki vel við svona mikinn kulda,


þá finnst mér þetta frekar kosý.


Svo get ég líka skemmt mér á skautum á meðan...

19 febrúar 2010

Það eru maurar í teppinu...skrýtin lítil skrímsli....


Er í nettu nostalgíukasti eftir kvikmyndakvöld á Debaser Medis í gær þar sem við Inga og Auður horfðum á nýútkomna heimildamynd um BLUR! Myndin fannst mér góð og vel gerð og þeir eru allir orðnir vinir aftur...ótrúlega krúttlegt.
uhh...geta fertugir lifaðir popparar verið krúttlegir?

En við að rifja upp Blur árin mundi ég einnig eftir þessum dásamlega dúett Damon og Francoise Hardy sem er á smáskífunni Country House.

17 febrúar 2010

Upp er runninn Öskudagur...

og ég sem er einstaklega mikil áhugakona um að klæðast grímubúningum var að spá í að vera Bleiki Pardusinn í dag en svo fattaði ég að ég átti ekki Bleikan Pardus búning svo það datt eiginlega um sjálft sig! En var samt að spá í staðinn að hengja öskupoka aftan á fólk en datt svo í hug að það er kannski ekki þekktur siður hér í Svíaríki þannig myndi ég áræðinlega verða talin eltihrellir svo ég ákvað að salta það aðeins.
En verð ég búsett á öskupokavænni stað að ári verður þetta klárlega málið!



Hinsvegar gerði ég dauðaleit að ketti og tunnu til að skella honum í en hef ekki fundið enn. Þannig að ég er að spá í að láta mér nægja að hitta Ingu og Auði á Gulu Villunni og fá mér súpu og kannski eitthvað meir...

Hvenær ætli kettinum í tunnunni hafi annars verið skipt út fyrir sælgætið? Persónulega finnst mér meiri akkur í að fá nammi úr tunnunni heldur en kött.

Ég ætti kannski bara að prófa að lemja Ingu og Auði og sjá hvort þær gefi mér nammi?

15 febrúar 2010

Það er Bolludagur í dag...

og ég er ekki búin að borða bollu í dag sökum þynnkuseinkunar! Borðaði þó nokkrar í gær svo ég er kannski stikkfrí í dag en svo kemur kannski andinn yfir mig seinna í dag, eða þynnkan lætur sig hverfa, og þá á ég enn nokkrar til góða.

Um helgina kom Sandran í heimsókn í höfuðstaðinn

og við borðuðum á Blåber sem er með skrilljón tegundir af geðveikt góðum salötum á stúdentavænu verði, tókum einnig smá lúr í bíó meðan Inga horfði á Sherlock Holmes, fórum á skauta í Kungsträgården, bökuðum bollur, borðuðum bollur, fengum okkur að borða á Helens sushi, fórum svo í afmæliskökuboðspartý til Tinnu

og enduðum í trylltu tjúttpartý hjá Hófí og Theo

þar sem Inga snerist í hringi

en Auður var eitthvað efins

11 febrúar 2010

Þvottavélaþrjótar!

Þvottahúsið mitt hér á Lappis er óendanleg uppspretta pirrings og almmenna leiðinda. Fyrir utan að halda þvottinum mínum í gíslingu endrum og eins þá er það einnig fólkið sem gengur þar um sem á sök á hluta pirringsins. Bókunarkerfið í þvottahúsinu er nú ekki mjög flókið. Maður getur bókað 1 þvottatíma á dag og þá fær maður 2 vélar í 1,5 klst. og maður velur getur valið hvaða 2 vélar maður vill fá, að því gefnu að þær séu ekki þegar bókaðar, og svo er alltaf 1 vél sem er svona „á síðustu stundu“ vél. Allt er þetta skilmerkilega merkt og útskýrt á sænsku en þar sem meirihluti þess fólks sem býr hér á Lappis eru skiptinemar frá Suður-Evrópu og Asíu skilja þau ekki sænsku leiðbeiningarnar! Lendi ég þar af leiðandi í atviki eins og nú í morgun þar sem ég kom að stúlku sem var búin að dreifa þvottinum sínum í báðar vélarnar mínar og eina til en ekki í vélina sem hún átti sjálf bókaða!

09 febrúar 2010

Hvað helduru?

Þegar ég var 18 og leit út fyrir að vera 14 passaði ég mig á því að svara aldrei spurningunni „Hvað ertu gömul?“ með „Hvað helduru?“ því svarið var e-ð sem ég vildi ekki heyra á þeim tíma. Í dag er ég hins vegar 33 ára óþolandi týpan sem gerir þetta ítrekað, allavega á meðan ég er enn spurð um skilríki í Ríkinu (bæði íslenska og sænska), boðið að kaupa ungmennafarmiða í strætó og get svindlað mér inn á flugeldasýningar frítt undir 12 ára!

08 febrúar 2010

Kjánahrollur ársins 2010?

Er vart búin að ná mér af kjánahrollinum sem fylgdi því að horfa á Melodifestivalen á laugarsdagskvöldið. Kynnarnir eru svona týpískt tríó, ein kona og tveir karlar, sem samanstendur af þremur misfrægum Svíum og eru bara alls ekki fyndin þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hinsvegar fannst mér þetta söng- og dansatriði Dolph Lundgren aka Ivan Drago(sem er einn af misfrægu Svíunum) bráðfyndið, þó svo að mig gruni að það hafi ekki verið ætlunin.


Fyrir þá sem ekki vita hver Ivan Drago/Dolph Lundgren er (Inga Hlín), set ég inn atriði með einni fleygustu setningu kvikmyndasögunnar.

05 febrúar 2010

Ein ég sit og sauma...út í gömlum krosssaumi.


Fékk nefnilega Öræfarósina mína í dag og var svo spennt að byrja að allar áætlanir um IKEA- og matvöruverslunarferð fuku út um veður og vind.
Einhvern tíma í fyrndinni saumaði ég út í púðaver með forljótri mynd og ennþá ljótari litum því handavinnukennaranum fannst óþarfi að ýta undir sjálfstæða hugsun eða ákvarðanir hjá 11 ára nemendum sínum. Myndin var prentuð á strammann í lit svo þetta vafðist ekki mikið fyrir manni þó svo að púðaverið megi kannski enn finna hálklárað inn í skáp hjá mömmu. Það var þó ekki skortur á hæfileikum sem átti sökina heldur einfaldlega þrjóska, mótþrói og almenn uppsteit.
Í þetta skiptið er hins vegar engin mynd prentuð á strammann (maður verður s.s. að telja út sjálfur) en þrátt fyrir smá „hardcore“ útsaum hef ég fulla trú á sjálfri mér enda hef ég minna verið með uppsteit svona í seinni tíð. Svo er Öræfarósin einfaldlega of fín til að maður klári hana ekki!