05 febrúar 2010

Ein ég sit og sauma...út í gömlum krosssaumi.


Fékk nefnilega Öræfarósina mína í dag og var svo spennt að byrja að allar áætlanir um IKEA- og matvöruverslunarferð fuku út um veður og vind.
Einhvern tíma í fyrndinni saumaði ég út í púðaver með forljótri mynd og ennþá ljótari litum því handavinnukennaranum fannst óþarfi að ýta undir sjálfstæða hugsun eða ákvarðanir hjá 11 ára nemendum sínum. Myndin var prentuð á strammann í lit svo þetta vafðist ekki mikið fyrir manni þó svo að púðaverið megi kannski enn finna hálklárað inn í skáp hjá mömmu. Það var þó ekki skortur á hæfileikum sem átti sökina heldur einfaldlega þrjóska, mótþrói og almenn uppsteit.
Í þetta skiptið er hins vegar engin mynd prentuð á strammann (maður verður s.s. að telja út sjálfur) en þrátt fyrir smá „hardcore“ útsaum hef ég fulla trú á sjálfri mér enda hef ég minna verið með uppsteit svona í seinni tíð. Svo er Öræfarósin einfaldlega of fín til að maður klári hana ekki!

Engin ummæli: