30 október 2008

Enn í heimaprófi...

jebb..síðasti dagur heimaprófsins í dag..á að skila kl.10 í fyrramálið sem þýðir að sjálfsögðu að ég mun klára að skrifa undir morgun og hendast svo uppí skóla til að prenta út og skila inn. Cissi sagði mér í dag að Robin sem er með okkur í kúrsinum hefði skilað inn á mánudaginn! Ég meina..hver gerir svona hluti! Aldrei að vera á undan með neitt er mitt mottó...reyndar er það bara staðreynd en mér finnst það bara hljóma betur ef ég læt sem það sé mottó..ekki satt?
Annars er nú ágætt að þessi vika heimaprófsins sé senn á enda. Er farin að fíla mig eins og Hugh Hefner..í náttfötunum allan daginn! Reyndar bý ég ekki með 3 kærustum..svo það er sennilega bara náttfatafílingurinn sem ég og Hef gamli eigum sameiginlegt.
Er samt búin að vera dugleg að fylgjast með umheiminum þá ég fari ekki út úr húsi þökk sé internetinu..hvað gerði fólk í heimaprófum áður en internetið kom til sögunnar? En nú eru Færeyingar farnir að lána okkur Íslendingum peninga! Tilfinningin svolítið eins og ég fengi lán úr sparibauknum hjá Victori jr. þó hann mundi örugglega setja fleiri skilyrði fyrir láninu en Færeyingar!

Stjörnuspá dagsins finnst mér skemmtileg svo ég ákvað að skella henni með.

Naut: Það er meira áríðandi að vita hvað þarf að gera, en að gera það. Það er viturlegt að hefjast ekki handa við verkefni dagsins án þess að skipuleggja sig.


s.s. aldrei að gera neitt í dag sem þú getur gert á morgun!

27 október 2008

alltaf að græða....

græddi heilan klukkutíma í gær þegar Svíar og aðrir Evrópubúar (nema Ísland) færðu klukkuna aftur um 1 klst. Munar um minna þegar maður er í heimaprófi! Það er s.s. orðið bjartara fyrr á morgnana en svona almennt fyrir EKKI morgunmanneskjur eins og mig er að sama skapi komið myrkur fyrr eða um fimmleytið á daginn. Hmm.. veit ekki hvort ég er svo hrifin af þessu...var það ekkert sérstaklega þegar ég bjó í York og hef ekki enn fundið morgunmanneskjuna í mér...kannski er hún bara ekki til staðar. En allavega þá er ég sem sagt í heimaprófi sem gengur hægt en gengur þó, ég þarf þó víst ekki að örvænta miðað við stjörnuspánna mína í dag:)
Naut: Þér finnst þú vera að missa af vissum lærdómi eða að það séu gloppur í vitneskju þinni. Reyndin er sú að þú er frumlegri og einstakari því þú ert ótamin

Svo nú er ég búin að ákveða að pósta stjörnuspánni minni á hverjum degi svo ég geti deilt þessari dásemd með öðrum...nema þegar stjörnuspáin er leiðinleg...þá á hún við HIN nautin EKKI mig.

Tókum okkur annars smá pásu á föstudagskvöldið frá lærdóm og skelltum okkur á
barinn...


Trisha, Jonathan og Cissi


Facebook profile-mynd


Inga og Elin í góðum fíling


Elin var mjög impóneruð af pósunum okkar Ingu

20 október 2008

loksins...loksins...

er ég mætt á skype! Alla som vil prata med mig på skype...kom nu! Á morgun samt, er sybbin núna og þarf að fara að sofa. Gekk samt ekki vandræðalaust að koma þessari nýju tengingu (pungnum) í gagnið. Sem betur fer bý ég með tölvusnillingnum honum Breka! Er farin að halda að öll tölvu-etwas viti af því og þess vegna er ekkert einfalt varðandi tölvur og tengingar hjá mér....Breki greyið vissi ekki hverju hann átti von á þegar mamma hans ákvað að leigja mér herbergi. Algengt er t.d. að heyrist í mér: Uhh..Breki, tölvan mín...

19 október 2008

Thungur krísur; bankur pankur; frågor?

já Svíum finnst gaman að gera grín að okkur...er farin að skilja hvernig Hafnfirðingum líður.

18 október 2008

Öland og Októberfest!

Öland var í einu orði sagt frábært. Ofsalega fallegt þar og fullt fullt fullt af flottum fornleifum. Við ókum um alla eyjuna og skoðum s.s. fullt af þessum fornleifum s.s grafhauga, steinsetningar, borgarvirki o.fl. samt er víst hellingur sem við skoðuðum ekki. Gistum á farfuglaheimili í Borgholm sem var mjög fínt og gátum eldað okkur sjálf þar og náttlega haldið eldhúspartý! Ég lét plata mig í stjórn STARK sem er nemendafélagið í fornleifafræðinni svo nú getur maður aldeilis troðið sér á framfæri..nei segi nú bara svona...en þetta er gott tækifæri til að taka þátt í skipulagningu á því sem er að gerast í nemendafélaginu og svo var ég að vinna á pöbbnum okkar í gærkveldi enda ekki óvön manneskja þar á ferð ;)(Kirkjubæjaklaustur 2006 sælla minninga) En félög innan húmanisku deildarinnar reka saman pöbbinn Gula villan á campus svæðinu og STARK á eitt föstudagskvöld í mánuði þar. Ég mun setja inn fleiri myndir seinna í dag eða á morgun..læt vita..

Hádegisnesti í Köpingsvik


Bátssteinsetning við Gettlinge gravfelt


Karlevi Rúnasteinninn


Eldhúspartý


Klettaristur fyrir utan Norrköping

12 október 2008

Eniga meniga....ég gat tekið út peninga!

jess, ég gat tekið út pening í hraðbanka í gær..veit samt ekki hvort það á eftir að breytast eitthvað í vikunni þar sem fréttirnar segja að á morgun kemur í ljós hvert stefnir í efnahagsmálum á heimsvísu..en allavega nóg um það..svona krepputal er bara niðurdrepandi og þó að ástandið hér sé ekkert alvarlegt.ennþá, þá er ég farin að finna fyrir hækkandi vöruverði hér í Svíaríki svo ekki sé nú talað um gengi íslensku krónunnar..sé nú litla dýra Ísland í hillingum...en nú eru sambærilegar vörur dýrari hér en heimi m.a. út af genginu.
En af því að kreppa er svo niðurdrepandi þá ákváðum við Inga að lyfta okkur aðeins á kreik í gærkveldi og héldum út á bar í SoFo á Södermalm..bara fín stemmning.
Veðrið er bara búið að vera ágætt hér þó að í síðustu viku dró ég upp kápuna mína þar sem það kólnar svolítið seinni partinn svona þegar sólin fer ;)
Skólinn er á fullu, er að fara í pallborðsumræður eftir næstu helgi og svo vikuheimapróf í lok mánaðarins í einum kúrsi. Í nóvember byrja ég svo í öðrum kúrsi, Siðferði og Vísindi, og svo er ritgerðarefnið mitt komið á hreint! Fer að byrja á því fljótlega með hinum kúrsunum en eins og ég sagði áður mun ég gera griparannsókn frá Birka .Þar fannst hús sem er að hluta til undir ´The Warrior House´ og er þar af leiðandi eldra en það. Ég á s.s. að skoða gripina sem fundust í því húsi, forverja þá með forverðinum á deildinni,og finna út úr því hvað þeir eru og til hvers þeir voru notaðir og þannig komast að einhverri niðurstöðu um hvaða tilgangi þetta hús þjónaði. Ég mun einnig skoða einhver sýni með lífrænum leifum úr þessu sama húsi. Ég er að míga á mig af spenningi yfir þessu verkefni og hlakka geðveikt til að byrja. Það hafa fundist svakalega flottir gripir í Birka og Lena, leiðbeinandinn minn, sýndi okkur Ingu nokkra gripi sem geymdir eru uppá deild og maður slefar bara...
En já, svo er Öland á morgun. Förum eldsnemma í fyrramálið og komum aftur á fimmtudagskvöld. Segi ykkur allt frá því þá.

10 október 2008

Heilaæxli?

held að ég sé búin að horfa á aðeins of mikð af læknaþáttum undanfarið (s.s.heilu seríurnar af Grey´s Anatomy og House) því fyrir utan að vera fá hjartaáfall þegar mig verkjar í vinstri handlegginn, þá er ég orðin viss um að í hvert skipti sem ég fæ höfuðverk sé ég komin með heilaæxli eða einhvern ofur-sjaldgæfan taugasjúkdóm sem veldur einhversskonar bilun í heilaboðum...uhh..eða kannski er ég bara með Munchausen heilkenni.

07 október 2008

Þú brennir peninga...með því að...

vera á íslenskum námslánum í erlendu ríki í dag! Já já, íslenska krónan er farin að slaga upp í Zimbabve dollara í óstöðuleika og almennri vitleysu...veit varla hvort maður á að fara að versla í matinn í dag eða í næstu viku í von um að gengið lækki. Hinsvegar með að bíða gæti svo farið maður hefði ekki efni á að versla í matinn yfirhöfuð. Stórkostleg tímasetning að ákveða að fara í nám erlendis. Það kreppir verulega að skónum hjá íslenskum námsmönnum erlendis þessa daganna...bráðum komast þeir ekki í skónna! En fyrir utan almmenna fátækt er allt gott að frétta hér frá höfuðborginni. Er að komast á skrið með ritgerðina mína en í náminu mínu áttu helst að vera búin að ákveða hvað þú ætlar að skrifa um (eftir rúmt ár) áður en þú byrjar í náminu. Ég var ekki alveg svo framarlega á merinni með þetta en mánuður finnst mér nú bara býsna gott til svona ákvörðunnar. Er að fara hitta leiðbeinandann minn á föstudag og þá skýrist allt betur en ég mun gera einhvers konar griparannsókn frá Birka.
Var hinsvegar í semnari í dag um Pompeii (en þangað hef ég einmitt komið..ligga ligga lái) og las ofurspennandi grein um nýlega rannsókn á gusthlaupinu sem grandaði borginni árið 79 e.o.t. Þar er m.a. skoðað í hvað fasa af gosinu íbúrnir dóu, hvort það var í vikurfallinu sem kom fyrst, gusthlaupinu sem fylgdi á eftir eða vegna öskufallsins seinast og eitraðra gastegunda. Á greinina í pdf-skjali ef einhverjum langar að lesa..ok, nú er ég búin að nördast nógu mikið með fornleifafræði...svo að öðru...ég er að fara til Öland á mánudaginn næsta með skólanum að skoða fullt fullt af flottum fornleifum (var víst ekki alveg búin að nördast með fornleifafræðina) en þar eru bæði kumlateigar, steinsetningar og margt fleira áhugavert.

04 október 2008

slow motion og menningarlegheit...

var í hálfgjörðu slow motion í morgun...ætlaði að hitta Ingu inn í borg um hálf ellefu en þar sem tíminn leið ofur-hratt í morgun, eða þá ég svona hægt, þá var ég ekki komin fyrr en að verða ellefu. Rétt missti meira að segja af lestinni sem ég ætlaði að taka þegar ég var loks búin að koma mér út úr húsi, ákvað að sleppa áhættulestaratriðinu þessa vikuna og taka bara næstu. Missti nefnilega næstum því af lestinni um daginn en ákvað samt að spretta úr spori og flaug í gegnum kortahliðið, tók rúllustigann í þremur skrefum og þaut svo á hlið innum lestardyrnar sem voru þann mund að lokast og "slædaði" svo yfir gólfið. Uppskar m.a. klapp frá þéttsetnum lestarvagninum! Í dag ákvað ég hinsvegar að láta áhættuatriðin s.s. vera og treysta því að Inga yrði seinni en ég :)
Annars vorum við svo agalega menningarlegar...fórum á sýningu í Konstakademien þar sem verk vinningshafa og tilnefndra listamanna Carnegie Art Award voru til sýnis. Get hiklaust mælt með þeirri sýningu og ekki skemmir fyrir að það er engin aðgangseyrir. Þaðan skelltum við okkur svo á Moderna Museet og ráfuðum þar um heillengi að skoða það sem var í boði og var þessum 60 sek vel varið í aðgangseyrinn. Þar er m.a. ný sýning á verkum súrealistans Max Ernst. Það fannst mér stórkostleg sýning og gæfi mikið fyrir nokkur verka hans sem þar voru.
T.d. fannst mér þetta verk bráðskemmtilegt

La Vierge corrigeant l´enfant Jésus devant tres témoins: André Breton, Paul Éluard et le peintre, 1926
Ísl.þýðing: Hin heilaga jómfrú flengir Jesúbarnið fyrir framan vitringana þrjá: André Breton, Paul Éluard og málarinn sjálfur, 1926. (Breton og Éluard voru vinir Ernst)

02 október 2008

lasin og löt...

Er búin að vera hálfslöpp í vikunni en dröslaði mér þó í skólann í gær þar sem var seminar um klassíska fornleifafræði en umræðurnar snerust þó eingöngu um grískar húsbyggingar og Alexander Mikla! Pínu Ragga fílingur í gangi þar en ég var bara svo slöpp eitthvað og pirruð yfir því að vera slöpp en þó meira pirruð yfir smjattandi skrítna gaurnum öðru megin við mig og andfúlu áttræðu konunni hinu megin að ég þagði bara til þess að vera ekki dónaleg við kennarann og samnemendur mína sem mér fannst vera blaðra tóma þvælu! Enda talaði umsjónarkennari kúrsins við mig eftir á og spurði hvort það væri ekki allt í lagi? Henni finnst greinilega líka skrítið ef ég þegi í meira en klukkutíma ;) En annars er Pompeii á dagskrá fyrir seminarið í næstu viku en fyrir þá sem ekki vita þá fórum við Sandra líka til Pompeii í Rómarferðinni miklu ...ligga ligga lái.





Reyndar geta þessar myndir svo sem verið hvaðan sem er en hér eru fleiri myndir frá Rómarferðinni og náttlega Pompeii