30 maí 2009

venjulegur föstudagur

í fornleifafræðinni hér í sólríka svíaríki endar á grilli og busli í Mälerenvatni. Fornleifafræðideildin stendur við skóg og vatn og þar sem það er alltaf sól í Stokkhólmi og gott veður þá förum við niður að vatni eftir skóla, grillum, syndum í vatninu og sólum okkur. Að sjálfsögðu fylgir þessum sið áfengir drykkir.

Byrja á því að busla aðeins áður en maður stingur sér til sunds :)


Inga buslaði líka áður en hún lagðist til sunds :)


Svo sóluðum við okkur eftir á.




P.s. því miður var filman búin í myndavéinni svo ég get ekki sýnt myndir af sundtökum í vatninu.

25 maí 2009

Ein voða dofin

já, ég er greinilega ekkert smá dofin. Þegar ég kom úr Tunnelnum í Farsta rétt um kl.17 í dag byrjaði eitthvað fólk og börn að skrækja og svo kom einhver gaur í svörtum æfingagalla, með eitthvað drasl á hausnum sem náði fyrir andlitið á honum, og hljóp á harðaspretti með poka í hendinni framhjá mér. Á eftir honum hljóp annar gaur með myndavél og virtist vera að taka upp á video á hlaupunum. Ég hélt að þetta væru einhverjir gaurar að taka upp stuttmynd eða eitthvað álíka og var einmitt að spá hvort ég hefði á að vera svolítið kvikindisleg og fella gaurinn með draslið á hausnum og pokann! Ég færði mig nefnilega aðeins til hliðar svo hann hlypi ekki á mig.
Núna var ég hinsvegar að lesa fréttir inn á Dagens Nyheter og þá sá ég þessa frétt!
Það var s.s. ekki verið að taka upp neina stuttmynd heldur var gaurinn með pokann ræningi vopnaður byssu sem hann hleypti af inni hjá gullsmiðnum!

Var ég þá s.s. að aðstoða hann við að komast undan með því að færa mig frá?

Er ég kannski meðsek?

22 maí 2009

klemmudagur!

Svíar hafa þennan magnaða sið að ef það er frídagur á fimmtudegi eins og í gær á Uppstillingardegi, eins og Inga segir, þá er föstudagur s.s klemmudagur og hann er þá bara frídagur líka til að ná laaangri helgi út úr þessu öllu saman. Verslanir og veitingastaðir eru þó opnir. Eeen þar sem ég er EKKI að vinna í búð eða á búllu þá er ég í fríi í dag! Þarf reyndar að læra en það er allt önnur Ella.

17 maí 2009

ljótukjólavision - úrslit

því miður fóru úrslit Júróvision söngkeppninnar ekki á sama veg og mín úrslit í ljótukjólavision sem ég verð eiginlega að breyta í ljótuklæðavision vegna Ameríska keppandans (sem keppti fyrir Þýskaland því USA er ekki enn komið í keppnina) því hann flaug inn á Topp 5 í þessum klæðum!


Eins og sannaðist með ameríska þjóðverjanum þá er nauðsynlegt að koma með nýtt blóð í aðalkeppnina því eitthvað verður mitt illkvittna hjarta að hafa til að gleðjast yfir á lokakvöldinu. Skemmti mér einmitt konunglega yfir hinni spænsku Sorayu og kjólnum hennar.

Hönnuðirnir hafa greinilega ruglast á Eurovision Song Contest og European Figure Skating Championships!

Albanska atriðið úr dótabúðinni olli mér dálitlum ugg.

Græni gæinn er bara krípi (svo maður sletti á góðri íslensku) og stúlkan hefur ákveðið að fylgja þemanu með snípsíðum kjól en ólíkt öðrum keppendum (lesist Rúmenía og Úkraína) var hún stjörf af ótta við að það sæist hvort hún færi í Brazilískt eða ekki!

Uppáhaldið mitt og í mínum huga sigurvegari keppninnar er samt enn Svetlana frá Úkraínu.

Hlakkaði mikið til að sjá í hverju stúlkan sú myndi klæðast að ári.

Vildi óska þess að Júróvision væri svona 3 sinnum á ári því betri skemmtun yfir ljótum klæðnaði er vart hægt að hugsa sér. Þarf ég virkilega að bíða í ár eftir að geta tekið gleði mína á ný?

14 maí 2009

ljótukjólavision - taka tvö

beið spennt eftir að keppnin byrjaði í kvöld til að geta skemmt mér yfir dásamlegri hugmyndaauðgi keppenda í ljótufatavali. Varð snarlega fyrir vonbrigðum þrátt fyrir góða tilraun hjá Írlandi með þetta 80´s glamúrrokkoutfitt.


Um miðbik keppninnar tók ég hinsvegar gleði mína á ný þegar ungverska liðið, sem villtist á leið á Las Vegas sjóvið sem þau áttu að sýna í árið 1989, mættu á sviðið.

Setti inn svona bónusmynd til að hægt sé að dást betur að ljótleikanum.


Eftir þetta batnaði keppnin til muna enda kom Aserbadsjan strax í kjölfarið með þetta innslag.

Snípsíðir kjólar með slóða. Ég var farin að sakna þeirra.

Þegar Svetlana frá Úkraínu mætti svo í þessari múnderingu þá tók mitt litla illkvittna hjarta nokkra gleðikippi því hér mun drottningin sjálf vera mætt á svæðið.

P.s Lady Gaga vill fá stígvélin sín tilbaka!

sannanir!

ef einhver skyldi hafa efast um réttmæti þess að tala um Júróvision sem ljótukjólakeppni þá eru sannanirnar yfirgnæfandi.

Ég hélt að Malene frá Svíþjóð væri í ljótasta kjólnum með eitthvað fjaðradrasl hangandi neðan úr honum.


En það var áður en ég sá kjólinn hennar Jóhönnu! Það er þó allavega hægt að skilgreina það sem hangir neðan úr kjólnum hennar Malene, þetta eru hinsvegar bláar..borðtuskur?


Tyrkland sló alveg í gegn með þessum...magadansbúningadressum?

Held samt að Alladínbuxurnar með klaufinni og ökklastígvélasandölunum? hafi alveg sett punktinn yfir ljótleikann.

Ísrael stóð sig einnig með prýði í ljótufatavali, enda veit maður varla hvað á að kalla þetta sem söngkonan vinstra megin er í.

Hef grun um að henni hafi fundist kjólinn of stuttur (náði ekki niður fyrir rass) svo slóðanum var skellt aftan á. Eitthvað hefur henni fundist kjóllinn enn sýna of mikið að neðan svo það var ákveðið að splæsa buxum og hnéháum stígvélum við! Held líka að hönnuðurinn sé blindur.

Myndin af búlgörsku aukaleikurunum í endurgerð myndarinnar Willow segir allt sem segja þarf!



Greinilegt að Elena hin rúmenska fer í Brazilískt! Veit ekki hvað slóðinn á að fela, enda tekst honum ekkert sérlega vel upp. Strápilsafílingurinn hjá dönsurunum er samt alveg til að toppa ljótleikann hér.

Finnsku stelpurnar stóðu sig líka nokkuð vel í kjólum úr versluninni Mótor frá árinu 1995.

12 maí 2009

ljótukjólavision

lögin voru leiðinleg svo ég ætla bara að tala um eitthvað allt annað t.d. alla ljótu kjólana. Það er greinilegt að þema júróvísionkeppninnar í ár eru ljótir kjólar, snípsíðir og helst með slóða eða einhverskonar magadansbúningakjólar! Er hrædd um að Jóhanna nái ekki að vinna þetta því bæði Ísrael og Rúmenía standa henni langtum fremri.
Er samt varla að trúa því að kjólinn hennar sé frá Anderson & Lauth sem hanna mjööög flott föt, annað hvort hafa Gunni og Kolla dottið á höfuðið eða kannski hafa þau þurft að laga hönnunina að smekknum hennar Jóhönnu?
Kynnarnir eru svo annað mál, fékk alveg kjánahroll niður í tær við brandarana þeirra þegar gæinn með hárkolluna og standpínuna fyrir fyrirsætunni var alveg nógu kjánalegur án brandarana!
En það verður spennandi að sjá hvort keppendur í semi-finale 2 halda uppi sama þema eða hvort þeir bryddi upp á einhverju nýju. Aðalkeppnin verður ekki síður spennandi, er Jóhanna kannski með fleiri ljóta kjóla í farteskinu?

frá mér til mín


Keypti mér þennan dásamlega Rules by Mary kjól í afmælisgjöf.

09 maí 2009

wounds from the war

Þegar ég kom heim úr seinni skylduferðinni til Nam, nei alveg rétt, það var ekki ég heldur gaurinn í myndinni sem ég horfði á gær. Ég er bara fornleifafræðingur sem blæddi nánast út yfir hálft lærið á sér án þess að taka eftir því! (ok, kannski smá ýkjur með magnið en það var samt fullt af blóði).

07 maí 2009

allan daginn út´um bæinn

Byrjaði í feltkúrsi í Karsvik í Bromma á mánudag. Ég og Inga, íslensku sérfræðingarnir, erum soldið sér á báti þar sem við erum í öðru prógrammi heldur en allir hinir og ráðum okkur því svolítið sjálfar s.s. við liggjum í sólbaði allan daginn. Við erum aðallega að taka fosfatsýni á svæðinu okkar og fyrir utan það til að geta kortlagt allt svæðið.
Virkar reyndar pínu eins og við nennum ekki að "hanga" með hinum. En við erum allavega að rannsaka nokkuð stórt svæði með fjölmörgum rústum á, allt frá eldri bronsöld (sennilega) til víkingaaldar. Fékk smá kennslu á tvímennings alstöð í gær sem var bara nokkuð skemmtilegt, fullt af tökkum til að fikta í, en svo erum við með aðra alstöð sem maður getur notað einn og ég á eftir að læra almennilega á hana. Annars er ekkert mikið annað um að vera þessa dagana, fór á Serrano í gær í Vällingby sem er stutt frá Karsvik en laaangt heiman frá mér. Fékk mér minn eigin spes burrito sem var rosalega góður svo ég og Inga erum að spá að fara aftur í næstu viku og fá okkur annan fix. Á morgun er ég svo að vinna inn á labinu að greina sýnin o.fl. svo ætlum við að grilla og drekka öl fyrir utan deildina í lok dags. Jättekul!

06 maí 2009

gefins

ónothæfur spilastokkur í splunkunýju ástandi fæst gefins gegn því að hann verði sóttur.

05 maí 2009

í tilefni dagsins

ákvað ég að deila einhverju með ykkur. Fékk trilljón afmælisóskir í dag m.a frá Ingu, Söndru, mafíunni og konunni á pósthúsinu. Fékk líka pakka



Í pakkanum sem var frá mafíunni var þessi dásamlegi fjólublái Forynju-hettupeysukjóll


Frá Manna fékk ég líka þennan yndislega kveðskap sem ég pósta hér án leyfi höfundar en þar sem þetta er MÍN afmælisgjöf þá hlýt ég að eiga þær.

Kveðju ég sendi þér kæra,
kyrja fuglar sumarbrag.
Lúin samt en þarf að læra,
Lífið bíður góðan dag.

gráttu ei ó gugga mín,
þótt gömul sé bæði og fúinn.
þótt línurnar hverfi og lífsorkan dvín,
og æfi þín líklega búin.


Inga leyfði mér líka að ráða í dag í uppgreftinum okkar, ætlaði að vera búin að baka köku og koma með í dag en heilsan á sunnudaginn leyfði ekki slíkt. Skulda þér köku Inga.
Hélt svo líka upp á daginn með að fara í tásuviðgerð, fann eina frábæra tásuviðgerðakonu í hverfinu mínu svo nú get ég búið endalaust í Stokkhólmi með tásuviðgerðakonu og dásamlegan klippara (sjá flottu klippinguna mína í fyrri pósti :)).
Það var frekar kalt í dag sem var svindl af því +eg var búin að panta spes afmælisveður en það var svo kalt að ég var í gammó og Inga líka, var samt ekkert að spyrja hina grafarana með okkur hvort þau væru líka í gammó en kannski tékka ég á því á morgun.

Einhverstaðar las ég að maður ætti alltaf að taka mark á draumum sem maður dreymdi á afmælisdaginn sinn svo hér kemur hann:

Dreymdi að ég væri komin heim til Íslands og ætlaði í háttinn. Kom mér fyrir til fóta í rúminu hjá mömmu og pabba!
Held að draumar séu bara bull og vitleysa og ekkert mark takandi á þeim.
Eða er sjálfið kannski 3 ára en ekki 23 ára?

Orð dagsins: standandi snúrur = þvottagrind