31 janúar 2010

Á skautum mun ég skemmta mér, skemmta mér...


Er nú orðin hamingjusamur eigandi nýrra skauta!
Fór s.s. í Stadium í gær og keypti mér þessa líka ofsa fínu skauta sem eru loðnir að innan og svo girnilegir að mér langar helst til að vera bara tásuber í þeim. Stadium fær hinsvegar toppeinkunn fyrir arfalélega þjónustu í öllum þremur búðunum þeirra sem ég fór í!
En nú bíð ég bara eftir að frostið fara undir -10°C svo ég verði ekki úti við að prufa nýju skautana mína.

28 janúar 2010

All my colours...


Karrýgult er sem sagt einn af nýju uppáhaldslitunum mínum, keypti mér einmitt þessa dásamlegu peysu frá Rules by Mary núna á lokaútsölu, en hana er ég er búin að þrá í allt haust, og viti menn...það eru karrýgul blóm á henni!

19 janúar 2010

Undirbúningur fyrir ÓL 2026 er hafinn!

jú jú, þá er undirbúningur minn fyrir Vetrarólympíu- leikana árið 2026 hafinn en þar hef ég hugsað mér að keppa í listhlaupi á skautum! Er búin að spá mikið en hef ekki enn ákveðið hvort ég muni keppa í einstaklings- eða paraflokki. Æfingar eru að vísu ekki hafnar en búningurinn er næstum komin á hreint, er eins og stendur með valkvíða milli þessara tveggja.



Kannski fær ég fleiri hugmyndir frá EM á skautum sem haldin er í dag og næstu daganna í Tallinn. Ef það eru engir fínir búiningar þar, þá er alltaf hægt að halda í vonina þar sem Vetrarólympíu-leikarnir eru nú í febrúar!

10 janúar 2010

heimsins heppnasti sauður

hélt að ég hefði toppað Tapað/Fundið skorið hér en annað kom á daginn þegar ég gleymdi tölvutöskunni minni á brautarpallinum hjá Arlanda Expresslestinni út á flugvelli þegar ég kom til Sthlm í hádeginu í dag! Í töskunni var að sjálfsögðu tölvan mín með ritgerðinni og fyrirlestrinum sem ég var að vinna að heima öll jólin og á að flytja á þriðjudaginn, fyrir utan svona allt annað sem einhverju máli skiptir varðandi mitt meistaranám hér í Svíaríki. Ég var með heilan einhverstaðar í bandi á eftir mér svo ég fattaði ekki að ég væri ekki með téða tösku fyrr en heim var komið og búið að taka upp úr þeim töskum sem ég mundi eftir! Panikaði náttúrulega og hringdi í Ingu (en hún er svo heppin að fá alltaf að taka þátt í svona veseni með mér) og fundum upplýsingar um Hittegods (Tapað/Fundið þeirra Svía)bæði hjá Arlanda Expresslestinni og flugvellinum sjálfum. Fékk bara upplýsingar um tölvupóst og símsvara, sendi tölvupóstinn en þar sem ég les ekki inn á símasvara þá sleppti ég honum en ákvað svo einnig að fara niður á Centralstation og tékka hvort eitthvað hafi fundist. Og viti menn, tölvutaskan mín fannst nokkrum mínútum eftir að ég tók lestina svo ég er komin með hana og allt sem í henni var í mínar hendur.

Er nú orðin kunnug öllum hnútum varðandi Hittegods hjá hinum ýmsu stofnunum og fyrirtækjum hér svo ef þið týnið einhverju hér í Sverige hafið bara samband og ég get leiðbeint ykkur í gegnum ferlið.

01 janúar 2010

mig dreymdi að væri komið árið 2012

en 2010 er það nú víst. Verð líklega um mánuð að venjast nýju ártali eins og venjulega...ekki sérlega gott þegar maður byrjar að leita uppi glósurnar fyrir próf og undrar sig á því af hverju það eru árs gamlar glósur innan um nýjar!

Fjölmiðlarnir eru alltaf uppfullir á nýju ári af yfirliti í máli og myndum yfir það gamla og ákvað ég í ár að vera enginn eftirbátur þeirra og skella hér inn mínu ári í máli og myndum - aðallega myndum þó.

Janúar - forvarði gripina frá Birka.


Febrúar - fór á skauta.


Mars - leiddist stundum.


Apríl - mátaði fornleifar í Hallandi.


Maí - tók fullt af sýnum.


Júní - gekk ég með sólgleraugu.


Júlí - mokaði holur meðan Busi svaf.



Ágúst - þeysti um á bát á Þjórsá.


September - gróf mína fyrstu gröf.


Október - polkagrisar og nammigrísar.


Nóvember - var andvaka milli matarboða.


Desember - jól og fimbulkuldi á Íslandi.



Áramótaheitið í ár verður hinsvegar leyndó...aðallega svo ekki sé hægt að benda mér á að ári að ég hafi ekki haldið það heit.